UNDIRBÚNINGUR

Flöturinn sem steypa á er gróf sléttaður. Komið er fyrir mótum um fletina sem á að steypa og þar sem á að skilja milli lita eða mynstra.

Veggir húsa og hleðslur í görðum eru klæddar með plasti til að minnka óhreinindi.

Mismunandi litaða fleti þarf stundum að steypa í sitt hvoru lagi til að koma í veg fyrir blöndun litanna á mótunum. Ef setja á hitaleiðslur í bílastæði eða sólskála þarf að setja leiðslurnar í sandlag undir steypunni. Síðan eru lagðar járnamottur eða net, en þau halda steypunni saman og koma í veg fyrir að hún spryngi þegar hún þornar.

STEYPINGIN

Steypan er lögð og sléttuð. Síðan er liturinn borinn á hana og hún sléttuð aftur til þess að liturinn fari inn í yfirborð steypunnar. Eftir að stráð hefur verið yfir hana viðloðunarfríu dufti eru gúmmímottur með munstrinu lagðar á hana og munstrinu þjappað ofan í yfirborðið.

EFTIRVINNA

Steypan er látin taka sig í 2 daga og síðan þvegin með vatni. Þá kemur liturinn í ljós. Nú þarf steypan að jafna sig í ca 10 daga áður en henni er lokað með vatnsfælnu akrýlefni til að verja yfirborð hennar gegn alls kyns óhreinindum t.d. olíublettum úr bílum.